Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 550 . mál.


861. Frumvarp til

laga

um leikskóla.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

    Lög þessi taka til starfsemi leikskóla. Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og er fyrir börn undir skólaskyldualdri. Er þá miðað við 1. september það ár sem börnin verða 6 ára. Leikskóli annast í samræmi við lög þessi að ósk foreldra uppeldi og menntun barna á leikskólaaldri undir handleiðslu sérmenntaðs fólks í leikskólauppeldi.
    

II. KAFLI

Markmið.

2. gr.

    Samkvæmt lögum þessum skal meginmarkmið með uppeldi í leikskóla vera:
—    að veita börnum umönnun, búa þeim hollt uppeldisumhverfi og örugg leikskilyrði,
—    að gefa börnum kost á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskosta barnahópsins undir leiðsögn leikskólakennara,
—    að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barna í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega svo að þau fái notið bernsku sinnar,
—    að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og jafna uppeldisaðstöðu þeirra í hvívetna,
—    að efla kristilegt siðgæði barna og leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,
—    að rækta tjáningar- og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt.
    

III. KAFLI

Yfirstjórn.

3. gr.

    Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til. Það gætir þess að farið sé eftir ákvæðum sem lög þessi og reglugerð með þeim mæla fyrir um, sbr. 6. gr.

4. gr.

    Menntamálaráðuneytið mótar uppeldisstefnu leikskóla, sinnir þróunar- og tilraunastarfi og mati á uppeldisstarfi leikskóla og er stjórnendum þeirra til ráðuneytis um starfsemina.
    Uppeldisstefnan er fagleg stefnumörkun. Þar skal kveðið á um uppeldis- og menntunarhlutverk leikskólans, gildi leiksins og meginstefnu varðandi starfshætti og innra gæðamat.
    Menntamálaráðuneytið hefur uppeldisstefnu leikskóla stöðugt til endurskoðunar, sér um útgáfu hennar og breytingar þegar þörf er talin á.
    

5. gr.

    Menntamálaráðuneytið stuðlar að þróunar- og tilraunastarfi innan leikskólans. Í því skyni skal árlega varið fé í þróunarsjóð með fjárlögum samkvæmt ákvörðun Alþingis. Menntamálaráðuneytið ákveður skiptingu fjárins.
    

6. gr.

    Menntamálaráðherra skal, að fengnum tillögum starfshóps menntamálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, setja reglugerð um starfsemi leikskóla. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um gæðaeftirlit menntamálaráðuneytisins með starfsemi leikskóla, gerð áætlana um uppbyggingu leikskóla, samstarf leikskóla við foreldra og grunnskóla, um heilsugæslu, um öryggi barna, um lágmarkskröfur til húsnæðis og aðbúnaðar barna og starfsfólks í leikskólum að svo miklu leyti sem kjarasamningar taka ekki til þeirra atriða, um lengd daglegs dvalartíma barna í leikskólum, um aðstoð og þjálfun barna skv. 16. gr., um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu leikskóla og starfssvið hennar og um starfsemi, húsnæði og starfsmannahald í leikskólum með sérstöku tilliti til fatlaðra barna sem þar dvelja.
    

IV. KAFLI

Hlutverk sveitarfélaga.

Stofnun og rekstur leikskóla.

7. gr.

    Bygging og rekstur leikskóla skal vera á kostnað og í umsjón sveitarstjórna og sjá þær um framkvæmd þessara laga hver í sínu sveitarfélagi, þeim er skylt að hafa forustu um að tryggja börnum dvöl í góðum leikskóla. Heimilt er öðrum aðilum að reka leikskóla að fengnu samþykki viðkomandi sveitarstjórnar. Tilkynna skal menntamálaráðuneytinu um stofnun nýs leikskóla. Sveitarstjórnir skulu árlega senda menntamálaráðuneytinu ársskýrslu um starfsemi leikskóla.
    

8. gr.

    Sveitarfélög skulu ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti meta þörf fyrir leikskólarými. Á grundvelli þess mats verði gerð áætlun til þriggja ára í senn um uppbyggingu leikskóla í viðkomandi sveitarfélagi og skal við gerð hennar höfð hliðsjón af heildarhagsmunum sveitarfélagsins. Endurskoða skal áætlunina á tveggja ára fresti. Áætlun um uppbyggingu leikskóla skal send menntamálaráðuneytinu.
    

9. gr.

    Leikskólanefnd, kjörin af sveitarstjórn, fer með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar. Einn fulltrúi starfsfólks leikskóla og einn fulltrúi foreldra leikskólabarna eiga rétt til setu á fundum leikskólanefndar með málfrelsi og tillögurétti. Heimilt er sveitarstjórn að sameina nefndir þannig að ein nefnd fari með verkefni á fleiri en einu sviði, sbr. 58. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.

10. gr.

    Sveitarstjórn/skólaskrifstofur skulu stuðla að eðlilegum tengslum og samstarfi leikskóla og grunnskóla og vera samstarfsvettvangur þeirra í viðkomandi sveitarfélagi.
    

11. gr.

    Í sveitarfélögum skulu að jafnaði starfa leikskólafulltrúar sem eru starfsmenn sveitarfélaga. Leikskólafulltrúi skal í umboði leikskólanefndar og í samvinnu við leikskólastjóra sinna ráðgjöf og eftirliti með starfsemi í leikskólum innan sveitarfélagsins og stuðla að samstarfi þeirra innbyrðis. Sveitarfélög geta ráðið sameiginlegan leikskólafulltrúa, hvort sem þau reka sameiginlegan leikskóla eða ekki. Leikskólafulltrúi skal hafa leikskólakennaramenntun.
    

V. KAFLI

Starfsfólk leikskóla og samstarf við foreldra.

12. gr.

    Við hvern leikskóla skal vera leikskólastjóri sem stjórnar starfi leikskólans í umboði rekstraraðila eftir því sem nánar segir í lögum þessum og reglugerð er sett verður samkvæmt þeim. Leikskólastjóri og það starfslið er annast uppeldi og menntun barna skal hafa menntun leikskólakennara.
    Leikskólastjóri ber ábyrgð á að gera áætlanir um uppeldisstarf leikskólans í samræmi við lög þessi. Leikskólastjóri skal árlega gera rekstraraðila grein fyrir starfsemi leikskóla.
    Sveitarstjórn setur starfsfólki leikskóla erindisbréf í samræmi við lög þessi og reglugerð er sett verður samkvæmt þeim.
    

13. gr.

    Leikskólastjóri skal halda reglulega fundi með starfsfólki um starfsemi leikskólans og velferð hvers barns.
    

14. gr.

    Leikskólastjóra er skylt að stuðla að samstarfi milli foreldra barnanna og starfsfólks leikskólans með velferð barnanna að markmiði. Sé óskað eftir stofnun foreldrafélags skal leikskólastjóri aðstoða við stofnun þess.
    

VI. KAFLI

Réttur leikskólabarna til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar. Ráðgjafarþjónusta.

15. gr.

    Börn á leikskólaaldri sem vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun eiga rétt á henni innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga.
    

16. gr.

    Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir leikskóla skal veita foreldrum barna og starfsfólki leikskóla nauðsynlega ráðgjöf og þjónustu sem nánar verður kveðið á um í reglugerð um starfssvið þjónustunnar. Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir leikskóla getur verið rekin sameiginlega með ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla.
    

17. gr.

    Leikskólar skulu þannig byggðir og reknir að þeir geti sinnt fötluðum börnum.

VII. KAFLI

Gildistaka.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og jafnframt falla úr gildi lög nr. 48/1991. Lög þessi raska ekki gildi ákvæði laga nr. 112/1976 sem lúta að skóladagheimilum.
    

Ákvæði til bráðabirgða.

    Í lögum þessum tekur starfsheitið leikskólakennari til þeirra sem lokið hafa viðurkenndu fóstrunámi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Hinn 5. janúar 1993 skipaði menntamálaráðherra, Ólafur G. Einarsson, nefnd til að endurskoða lög nr. 48/1991, um leikskóla. Nefndinni var falið að taka mið af lögum nr. 87/1989 um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, meðal annars með tilliti til þess að saman fari frumkvæði, framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð. Einnig var nefndinni falið að fjalla um hlutverk og ábyrgð menntamálaráðuneytisins, foreldra, leikskólakennara, sveitarfélaga og annarra rekstraraðila varðandi faglega og rekstrarlega þætti leikskóla.
    Í nefndinni voru: Anna K. Jónsdóttir, skipuð án tilnefningar, Ágúst Jónsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir, tilnefnd af Foreldrasamtökunum, Hilmar Sigurðsson, skipaður án tilnefningar, formaður nefndarinnar, Sesselja Hauksdóttir, tilnefnd af Fóstrufélagi Íslands, Sigrún Sveinbjörnsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Svandís Skúladóttir, deildarstjóri, skipuð án tilnefningar. Elín Skarphéðinsdóttir stjórnarráðsfulltrúi var ritari nefndarinnar.
    Nefndin samdi tillögu að frumvarpi til laga um leikskóla sem hér er lagt fram með smávægilegum frávikum.
    

Skýringar við frumvarp til laga um leikskóla.

     1. Uppeldisstefna /markmið.
    Frumvarp til laga um leikskóla byggir á hugmyndafræði og markmiðum sem lýst er í Uppeldisáætlun fyrir leikskóla sem kom fyrst út árið 1985 á vegum menntamálaráðuneytisins og var endurútgefin í apríl 1993.
    Uppeldisáætlunin er fagleg stefnumörkun og starfsrammi. Sérhver leikskóli gerir síðan eigin áætlanir um uppeldisstarfið í samræmi við þau markmið sem fram koma í áætluninni og þær þarfir og aðstæður sem fyrir hendi eru.
    Uppeldisstarf í leikskólum á að stuðla að því — í samvinnu við heimili barnanna — að efla andlegan og líkamlegan þroska barna og búa þeim öruggt, hlýlegt og lærdómsríkt umhverfi þar sem þau njóta sín sem einstaklingar og í hópi með öðrum börnum. Lögð er áhersla á bæði frjálsan og skipulagðan leik sem er kjarninn í starfi leikskóla, markmið og leið í uppeldisstarfinu. Nám og starf barnsins fer aðallega fram í leik og sköpun í máli, myndum, tónum og hreyfingu. Barnið aflar sér reynslu og þekkingar í leik og starfi með öðrum börnum, auk þess sem það nýtur fræðslu fóstrunnar og tekur þátt í daglegum störfum fullorðinna eftir því sem það hefur þroska og færni til.
    Í uppeldisstefnunni felst að leikskólinn aðstoðar foreldra við uppeldi barna þeirra og hann er fyrir öll börn án tillits til getu þeirra og þroska en engu barni er skylt að vera í leikskóla.
    Í leikskólanum á barnið einnig að öðlast þá færni að geta síðar glímt við nám í grunnskóla. Lögð er áhersla á tengsl milli leikskóla og grunnskóla til þess að skörp skil verði ekki á milli þessara skólastiga.
     2. Hlutverk ríkisins.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að menntamálaráðuneytið fari með yfirstjórn leikskóla eins og verið hefur. Það skal móta uppeldisstefnu leikskóla, styrkja þróunar- og tilraunastarf og sjá um að mat fari fram á leikskólastarfi. Í því skyni er lagt til að menntamálaráðuneytið beiti sér fyrir gerð gæðastaðals. Menntamálaráðuneytið skal setja leikskólum uppeldisáætlun þar sem sett eru fram markmið sem stefna ber að í uppeldisstarfi leikskóla og fjallað er um helstu uppeldis- og námssvið, grundvallarviðhorf og meginleiðir í uppeldi ungra barna. Menntamálaráðuneytið skal stuðla að samfellu í starfsháttum leikskóla og grunnskóla og sjá um að fullnægt sé ákvæðum laga um leikskóla.
     3. Hlutverk sveitarfélaga.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að bygging og rekstur leikskóla skuli vera verkefni sveitarstjórna eins og er samkvæmt gildandi lögum. Þeim er gert að stofna og reka leikskóla, meta þörf fyrir leikskólarými og gera áætlun um uppbyggingu þeirra. Sveitarstjórnir skulu sjá um framkvæmd þessara laga innan síns umdæmis, leita hagkvæmra leiða varðandi hönnun, byggingar og rekstur leikskóla og gera áætlun til þriggja ára í senn um uppbyggingu leikskóla í viðkomandi sveitarfélagi. Það er ákvörðun sveitarstjórnar hvenær þær ná því markmiði að nægilegt leikskólarými sé fyrir öll börn sem foreldrar óska eftir plássi fyrir.
    Sveitarstjórn veitir leyfi til reksturs leikskóla og getur heimilað einkaaðilum, félagasamtökum og öðrum aðilum rekstur leikskóla innan sveitarfélagsins. Sveitarfélög, eitt eða fleiri saman, ráða leikskólafulltrúa sem hefur með höndum ráðgjafarstörf og eftirlit með starfsemi leikskóla og sinnir verkefnum sem umdæmisfóstrum er ætlað samkvæmt gildandi lögum.
    Helstu breytingar í þessu frumvarpi frá gildandi lögum um leikskóla eru:
    Samkvæmt frumvarpinu skulu sveitarfélög gera áætlun um uppbyggingu leikskóla með hliðsjón af heildarhagsmunum sveitarfélagsins og taka ákvörðun um hvenær það markmið næst að öll börn öðlist rétt til að vera í góðum leikskóla. Í gildandi lögum er sveitarfélögum gert að stefna að því að ná þessu markmiði innan 10 ára frá setningu laganna.
    Leyfisveiting fyrir rekstri leikskóla er færð frá menntamálaráðuneytinu til sveitarstjórna og geta þær heimilað öðrum aðilum rekstur leikskóla.
    Með þessu frumvarpi er lagt til að leikskólanefnd fari með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórna eins og er í gildandi lögum. Það ákvæði í gildandi lögum að sveitarstjórn geti falið félagsmálanefnd að fara með málefni leikskóla er ekki í þessu frumvarpi. Nefndin leggur áherslu á tengsl leikskóla og grunnskóla og það að sérstök leikskólanefnd, eða sameiginleg nefnd leikskóla og grunnskóla, fari með þennan málaflokk í umboði sveitarstjórna. Lögð er meiri áhersla á en í gildandi lögum að einn fulltrúi foreldra og einn fulltrúi starfsfólks eigi rétt til setu á fundum leikskólanefndar með málfrelsi og tillögurétt.
    Með tilliti til þeirrar stefnu stjórnvalda að sameina sveitarfélög og að grunnskólinn verði að fullu fluttur yfir til sveitarfélaga er lagt til að starfsemi leikskóla tengist skólaskrifstofum viðkomandi sveitarfélaga en ekki fræðsluskrifstofum eins og er í gildandi lögum. Einnig skal ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir leikskóla rekin í samvinnu við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla.
    Ekki er lagt til að ráðnar verði sérstakar umdæmisfóstrur á vegum ríkisins eins og er í gildandi lögum (hefur reyndar ekki verið framkvæmt) en lagt er til að sveitarfélög, eitt eða fleiri saman, ráði til sín leikskólafulltrúa sem sinni þeim verkefnum sem umdæmisfóstrum er ætlað samkvæmt gildandi lögum. Með þessari breytingu er felld niður aðkoma ríkisins í öllu er varðar fjárhagslegan stuðning við rekstur og byggingu leikskóla.
    Fellt er niður ákvæði í 7. gr. gildandi laga sem kveður á um að menntamálaráðuneytið sinni rannsóknum á leikskólastarfi þar sem horft er til þess að þessi þáttur falli undir verksvið Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Leikskólar eru skv. 1. gr. uppeldis- og menntastofnanir fyrir börn.
    Leikskóli annast uppeldi og menntun leikskólabarna að ósk foreldra og er viðbót við uppeldi og menntun sem veitt er á heimilum barnanna. Í leikskólum starfar sérmenntað fólk í leikskólauppeldi.
    Hugtakið menntun nær í frumvarpi þessu yfir uppeldi, umönnun, þjálfun og kennslu sem í leikskóla fer einkum fram í leik og öðru starfi sem hæfir best börnum á leikskólaaldri.
    Í 1. gr. er skilgreining á hugtakinu leikskóli og öðrum skólum eða stofnunum, sem ekki starfa samkvæmt lögum um leikskóla, er óheimilt að bera heitið leikskóli.

Um 2. gr.

    Markmiðin með starfsemi leikskóla, sem sett eru í 2. gr. frumvarpsins, eru hin sömu og í gildandi lögum um leikskóla. Meginmarkmið í lögum um leikskóla miða að því að tryggja leikskólabörnum sem best uppeldis- og leikskilyrði sem örvi alhliða þroska hvers barns. Skýr markmið eru til þess ætluð að tryggja sem best fjölbreytt og markvisst uppeldisstarf í leikskólum landsins. Markmið eru útfærð og leiðir skilgreindar í Uppeldisáætlun fyrir leikskóla, sbr. 4. gr.

Um 3. gr.

    Menntamálaráðuneyti fer með yfirstjórn málefna leikskóla. Með því er stuðlað að því að leikskólinn þróist sem uppeldis- og menntastofnun og að sem mest samfella verði í uppeldi og menntun barna á öllum skólastigum.
    Menntamálaráðuneytið hefur eftirlit með rekstri leikskóla og setur í því skyni gæðastaðal til nota við eftirlitið. Gæðaeftirlitinu er ætlað að tryggja sem best leikskólastarf og sem jöfnust uppeldis- og menntunarskilyrði leikskólabarna.
    Í frumvarpinu er sú breyting gerð að leyfisveiting fyrir rekstri leikskóla færist frá menntamálaráðuneytinu til sveitarfélaga, sbr. 7. gr. frumvarpsins.
    

Um 4. gr.

    Í fyrstu málsgrein 4. gr. felst að menntamálaráðuneytið markar heildarstefnu í uppeldismálum leikskóla og myndar sveigjanlegan starfsramma. Uppeldisstefnan grundvallast á þeim markmiðum sem sett eru í 2. gr. frumvarpsins en auk þess er lögð áhersla á að fram fari innra gæðamat í leikskólunum sem leikskólakennarar hafi með höndum. Á grundvelli uppeldisstefnunnar gera leikskólakennarar hvers leikskóla sér eigin áætlanir og setja markmið í samræmi við aðstæður á hverjum stað og hverjum tíma. Það er álit fræðimanna og frumkvöðla leikskólauppeldis að börn að sex ára aldri þroskist og læri mest og best í leik. Uppeldisstefnu leikskóla er ætlað að taka mið af því.
    Með síðustu málsgrein 4. gr. er menntamálaráðuneytinu gert að tryggja að uppeldisstefnan taki á hverjum tíma mið af því sem best er vitað um leikskólauppeldi. Skal menntamálaráðuneytið fylgjast með nýjungum og rannsóknum á sviði leikskólamála innan lands og utan í þessu skyni.
    

Um 5. gr.

    Tilgangur þróunarsjóðs er að stuðla að þróun og gæðum í starfi leikskóla. Úr þróunarsjóði er veitt fjármagni til að standa straum af kostnaði við þróunar- og tilraunastarf innan leikskólanna.
    Menntamálaráðuneytið metur umsóknir um styrki úr sjóðnum og ákveður skiptingu þess fjármagns sem hverju sinni er veitt í hann með fjárlögum.
    

Um 6. gr.

    Hér eru talin ýmis atriði sem kveða þarf nánar á um með reglugerð um leikskóla. Upptalningin er að sjálfsögðu ekki tæmandi. Sveitarstjórnum eru lagðar mikilvægar skyldur á herðar með leikskólalögum og er því nauðsynlegt að fulltrúar þeirra komi að gerð tillagna um reglugerðarákvæði. Er þess vegna gert ráð fyrir því að menntamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga myndi starfshóp um samningu tillagna til ráðherra.
    Verði frumvarp þetta að lögum er mikilvægt að í beinu framhaldi af gildistöku þeirra verði gefin út reglugerð samkvæmt þessari grein.

Um 7. gr.

    Með 7. gr. er kveðið á um að bygging og rekstur leikskóla skuli vera verkefni sveitarstjórna eins og er samkvæmt gildandi lögum og að þær skuli hver um sig sjá um framkvæmd laganna innan síns sveitarfélags. Miðað er við að framkvæmd af hendi sveitarfélags sé í samræmi við áætlanir skv. 8. gr. á hverjum tíma.
    Sveitarstjórn getur heimilað öðrum rekstur leikskóla innan sveitarfélagsins. Ekki er lengur gert ráð fyrir sérstöku leyfi menntamálaráðuneytisins til reksturs leikskóla svo sem er samkvæmt núgildandi lögum en senda ber ráðuneytinu tilkynningu um hvern nýjan leikskóla sem settur er á fót. Rekstur leikskóla er háður umsögn heilbrigðisnefndar.
    

Um 8. gr.

    Á tveggja ára fresti láta sveitarstjórnir fara fram athugun innan síns sveitarfélags á þörf fyrir leikskólarými. Getur það ýmist verið með því að yfirfara reglulega skráningu þar um með sérstakri athugun eða könnun hjá foreldrum barna á leikskólaaldri eða með annarri aðferð sem hentar í viðkomandi sveitarfélagi. Á grundvelli slíkrar könnunar skal sveitarstjórn meta þörf fyrir leikskólarými í sveitarfélaginu til næstu þriggja ára. Við mat á því er rétt að sveitarstjórnir einskorði sig ekki við niðurstöðu könnunar á leikskólarýmisþörf, heldur horfi einnig til annarra þátta í rekstri sveitarfélagsins og byggi áætlanir um uppbygginu leikskóla á heildstæðu mati á þörfum sveitarfélagsins. Tilgangur áætlunarinnar er fyrst og fremst sá að marka sveitarstjórnum raunhæfa stefnu að teknu tilliti til heildarhagsmuna sveitarfélagsins. Áætlunina skal senda menntamálaráðuneytinu.
    

Um 9. gr.

    Í upphafi kjörtímabils sveitarstjórna skal nýkjörin sveitarstjórn kjósa sérstaka leikskólanefnd sem fer með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar. Þar sem sveitarfélög hafa sameinast um rekstur leikskóla skulu bæði eða öll viðkomandi sveitarfélög eiga fulltrúa í nefnd þeirri sem fer með málefni leikskóla.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nánu samstarfi leikskóla og grunnskóla, sbr. 6. og 10. gr. frumvarpsins.
    Starfsfólk leikskóla í hverju sveitarfélagi og foreldrar barna í leikskólum eiga rétt á því að einn fulltrúi frá hvorum aðila sitji fundi þegar fjallað er um málefni leikskóla í nefnd þeirri sem til þess er kjörin. Þessir áheyrnarfulltrúar hafa málfrelsi og tillögurétt.
    

Um 10. gr.

    Skólaskrifstofur í hverju sveitarfélagi eiga að hafa frumkvæði að því að eðlileg tengsl og samstarf verði á milli leikskóla og grunnskóla. Leikskólinn er fyrsta skólastig barna og er skólaskrifstofa því eðlilegur samstarfsvettvangur þessara skólastiga.
    

Um 11. gr.

    Í 11. gr. er gert ráð fyrir því að sveitarfélög ráði að jafnaði sérstaka leikskólafulltrúa sem hafi einkum með höndum ráðgjafarstörf og eftirlit með starfsemi í leikskólum sveitarfélagsins og stuðli annars vegar að samstarfi þeirra innbyrðis og hins vegar við grunnskóla innan sveitarfélagsins. Einkum er við því að búast að stærri sveitarfélög ráði slíkan starfsmann en einnig geta sveitarfélög, tvö eða fleiri, sameinast um ráðningu eins leikskólafulltrúa fyrir sveitarfélögin.
    Að því er varðar ráðningu leikskólafulltrúa og menntun hans er ekki raunhæft að krafa um leikskólamenntaðan leikskólafulltrúa í hverju sveitarfélagi sé undantekningalaus þótt það sé aðalreglan. Reikna verður með að í fámennari sveitarfélögum geti orðið erfitt að uppfylla kröfur um ráðningu leikskólafulltrúa með tilskilda menntun og má búast við að verkefni leikskólafulltrúa flytjist þá a.m.k. að einhverju leyti yfir til leikskólanefnda.

Um 12. gr.

    Leikskólastjóri gegnir veigamiklu forustuhlutverki í uppeldisstarfi leikskólans jafnframt því sem hann hefur á hendi margþætt stjórnunarstarf sem hann ber ábyrgð á gagnvart rekstraraðila. Hann ber einnig ábyrgð á gerð áætlunar um uppeldisstarf leikskólans að höfðu samráði við rekstraraðilann og að áætlunin sé í samræmi við gildandi lög.
    12. gr. tekur til menntunar þeirra er sinna uppeldi og menntun barna í leikskólum. Gert er ráð fyrir því að sveitarstjórn setji þeim og öðru starfsfólki leikskóla erindisbréf.
    

Um 13. gr.

    Til þess að markmiðum 2. gr. verði náð er nauðsynlegt að leikskólastjóri og starfsfólk hans fundi reglulega um starfsemi leikskólans og velferð hvers barns.

Um 14. gr.

    Eitt af markmiðum leikskólans skv. 2. gr. frumvarps þessa er „að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barna í samræmi við þarfir þeirra“. Leikskólinn er fyrir börnin og til þess að hagur þeirra sé sem bestur er gott samstarf á milli foreldra barnanna og starfsfólks leikskólans nauðsynlegt. Leikskólastjóri skal stuðla að slíku samstarfi og getur hann í því skyni beitt sér fyrir stofnun foreldrafélags. Hann skal einnig veita foreldrum sem þess óska aðstoð við stofnun slíks félags.
    

Um 15. gr.

    Í 15. gr. er kveðið á um rétt leikskólabarna með sérþarfir á sérstakri aðstoð og þjálfun. Hér er ekki kveðið sérstaklega á um markmið þjálfunarinnar og framkvæmd svo sem gert er í 14. gr. í gildandi lögum. Frumvarpið felur þó ekki í sér annað viðhorf til þjálfunar og aðstoðar barna sem 15. gr. tekur til en fram kemur í núgildandi lögum en gert er ráð fyrir því að nánar verði kveðið á um þessi atriði í reglugerð, m.a. með hliðsjón af lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992.
    Þessi grein gerir ráð fyrir að börn með sérþarfir njóti handleiðslu sérmenntaðs starfsfólks (sérfræðinga) innan leikskólans. Þar er átt við þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og aðra starfsmenn með sérþekkingu sem nýtist við uppeldi, umönnun og þjálfun.
    

Um 16. gr.

    Í 16. gr. frumvarpsins er gengið út frá því að ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir leikskóla tengist ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla víðs vegar um landið. Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta grunnskóla var lögfest 1974 og hefur þróast og eflst í nærri 20 ár en hún er kostuð af ríkinu. Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta leikskóla var fyrst lögfest með gildandi leikskólalögum 1991 og er þróun starfseminnar skammt á veg komin. Sum sveitarfélög hafa rekið slíka þjónustu eða vísi að henni á sinn kostnað en fæst sveitarfélög hafa þó slíka þjónustu.
    Til þess að fatlað barn og önnur börn með sérþarfir og foreldrar þeirra njóti samfelldrar þjónustu og til þess að tengja betur en gert er skólastigin tvö, leikskóla og grunnskóla, er eðlilegt að tengja saman ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu skólastiganna beggja þannig að hún verði ein heild.
    Skipulagning þjónustunnar verður á ábyrgð rekstraraðila hennar en getur verið mismunandi eftir stærð rekstrareiningar. Rekstrareiningar geta t.d. verið einstök sveitarfélög, héraðssambönd eða önnur starfs- eða þjónustusvæði skv. 5. gr. laga um málefni fatlaðra. Í 17. gr. frumvarpsins er hlutverk ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu ekki skilgreint en gert er ráð fyrir að kveðið verði á um starfssvið þjónustunnar í reglugerð svo sem hverjir skulu starfa þar og við hvaða verkefni.
    

Um 17. gr.

    Í 17. gr. er gert ráð fyrir að allir leikskólar skuli þannig byggðir og reknir að fatlaðir komist þar um, enda er það í anda byggingarlaga og laga um málefni fatlaðra. Gert er ráð fyrir því að öll fötluð börn eigi rétt á leikskóladvöl með börnum sem ekki eru fötluð enda fái þau að auki sérstaka þjónustu við hæfi hvers og eins, en í reglugerð verði kveðið nánar á um starfsemi, húsnæði og starfsmannahald í leikskólum vegna veru fatlaðra barna þar.

Um 18. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Á vegum Fóstrufélags Íslands fór fram almenn atkvæðagreiðsla í júní 1993 þar sem fóstrur völdu á milli starfsheitanna fóstra og leikskólakennari. Niðurstaðan varð sú að yfirgnæfandi meiri hluti kaus starfsheitið leikskólakennari. Að tilmælum formanns Fóstrufélags Íslands hefur verið tekið tillit til þessa við samningu frumvarpsins. Leikskólakennari og önnur samsvarandi hugtök í frumvarpinu taka því jafnt til þeirra sem hlotið hafa viðurkennda fóstrumenntun og hafa borið starfsheitið fóstra og þeirra sem síðar kunna að útskrifast frá námi með starfsheitið leikskólakennari.


Fylgiskjal.
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um leikskóla.

    Með frumvarpi þessu er ætlað að laga lög um leikskóla að breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þannig að saman fari frumkvæði, framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð á rekstri leikskóla.
    Samkvæmt frumvarpinu verður verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga á þann veg að menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn leikskólamála (3. gr.) en sveitarfélög kosti alfarið byggingu og rekstur leikskóla og sjá um framkvæmd laganna, hvert í sínu sveitarfélagi. Núverandi leikskóladeild menntamálaráðuneytisins mun starfa áfram. Þá fellur niður ákvæði í 7. gr. gildandi laga þess efnis að menntamálaráðuneytið sinni rannsóknum á leikskólastarfi. Í framtíðinni verður það á verksviði Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála. Engin áform eru um að fjármunir færist milli þessara tveggja aðila vegna þess.
    Fjárveiting til þróunarsjóðs leikskóla (liður 02 720 1.33) nemur 3,2 m.kr. á fjárlögum 1994. Gert er ráð fyrir að hún haldist áfram en styrkir úr sjóðnum eru veittir árlega. Þá nemur fjárveiting til dagvistar fatlaðra forskólabarna (liður 02 750 1.40) 83,6 m.kr. á fjárlögum 1994. Ekki er áformað að fjárveiting þessi breytist að sinni verði frumvarp þetta að lögum. Samið verður síðar við sveitarfélög um fjármögnun þessa verkefnis þegar grunnskólar og málefni fatlaðra færast til sveitarfélaga.